Fréttir

Bílvelta við Fosshól

Slökkviliðið var nú í kvöld kallað út vegna bílveltu við Fosshól en þar hafði jeppi með 5 manns oltið út af veginum.  Einn var fastur í bílnum og var því tækjabíll sendur á staðinn ásamt sjúkrabíl.  Einnig komu tveir sjúkrabílar frá Húsavík ásamt lögreglu með klippur.

Viðbúnaður vegna rútuslyss

Kl. 13:10  í dag, sunnudag, var óskað eftir viðbúnaði vegna rútuslyss í Fljótsdal.  Óskað var eftir að sjúkraflug yrði virkjað eins og hægt væri.  Strax var haft samband við Mýflug og Flugfélag Íslands og þeir beðnir um að virkja það flug sem væri í boði.  Ennfremur var greiningarsveit FSA kölluð út.

Nýjir liðsmenn í hjólahjálpina

Ánægjulegt að sjá að félagar okkar á Höfuðborgarsvæðinu hafa tekið upp "hjólahjálp" sem viðbót í þjónustu þá sem slökkviliðið veitir.  Þeir ganga þó skrefinu lengra en við hér á Akureyri og eru á mótorhjóli en við erum "ennþá" bara á reiðhjólum. Sérstaklega er ánægjulegt að sjá að okkar gamli félagi og slökkviliðsstjóri, Erling Þór Júlínusson skuli taka þátt í að leiða þetta verkefni ásamt fleirum. Til hamingju með þetta skref SHS!

Þrek og Þol á þriðjudögum.

Undanfarna tvo þriðjudaga hafa slökkviliðsmenn á vakt stundað þrek og þolæfingu með reykköfunartæki.

Góðir gestir

Í dag komu í heimsókn góðir gestir. Um var að ræða börn og leiðbeinendur þeirra á leikjanámskeiði KA og Þórs.

Óskar S. Óskarsson látinn

Óskar Stefán Óskarsson slökkviliðsstjóri á Sauðárkrók er látinn, 46 ára að aldri.  Hann var bráðkvaddur í Tyrklandi þar sem hann var í sumarleyfi með fjölskyldu sinni. Hann verður jarðsettur frá Sauðárkrókskirkju kl. 14 laugardaginn 14. júlí nk.

Mikið Annríki í sjúkraflugi

Mikið annaríki hefur verið í sjúkraflugi hjá Slökkviliði Akureyrar, Í júní mánuði var farið í 48 sjúkraflug á 30 dögum.

Slökkviliðsmenn á námskeiði í Noregi

Tveir liðsmenn Slökkviliðs Akureyrar, þeir Þorlákur S. Helgason og Alfreð Birgisson, fóru nú í júní á fimm daga námskeið fyrir flugvallarslökkviliðsmenn á Gardemoen flugvelli við Osló á vegum Flugstoða og Slökkviliðs Akureyrar.  Þessir starfsmenn hafa einmitt séð um flugvallarfræðslu fyrir starfsmenn Flugstoða á landsbyggðarflugvöllum samkvæmt samningi SA og Flugstoða en Þorlákur er umsjónarmaður flugvallarfræðslunnar.

Slökkviliðsmenn á frívakt bjarga 6 ára dreng frá drukknun.

Sex ára gamall drengur var hætt kominn í Sundlaug Akureyrar á mánudag í síðustu viku en sundlaugargestir sáu til drengsins sem var meðvitundarlaus á botni laugarinnar. Drengnum var strax bjargað á land og svo vel vildi til að á staðnum voru tveir menn úr Slökkviliði Akureyrar, auk hjúkrunarfræðings og tveggja lækna.  Jón Knutsen slökkviliðs- og sjúkraflutningamaður stjórnaði endurlífgun en Jón er menntaður í björgun á sundstöðum og hefur m.a. kennt sunlaugarstarfsfólki og stjórnað æfingum þeirra undanfarin ár.Drengurinn komst fljótlega til meðvitundar og var fluttur á FSA.  Hann fékk að fara heim daginn eftir og heilsast vel. 

Segjum stopp!!

Félag hjúkrunarfræðinga í samstarfi við slökkviliðs- og sjúkraflutningamann efna til fjöldagöngu gegn umferðarslysum til að minnast þeirra sem farist hafa í umferðinni og sýna samhug og samstöðu með þeim sem slasast hafa alvarlega. Frumkvæði að þessari göngu kemur frá hjúkrunarfræðingum við Landspítala háskólasjúkrahús en hjúkrunarfræðingar og sjúkraflutingamenn hér norðan heiða hafa slegist í för með samsvarandi göngu þannig að gengið verður samtímis í Reykjavík og á Akureyri.  Markmiðið er að vekja þjóðina til umhugsunar um alvarlegar afleiðingar hraðaksturs og þess að aka bíl undir áhrifum áfengis, fíkniefna eða lyfja. Gengið verður af stað þriðjudaginn 26. júní 2007 klukkan 17:00 frá þyrlupalli FSA (sunnan við FSA).