Reykskynjarar eru ódýr öryggistæki sem eiga að vera á hverju heimili.. Skerandi vælið í þeim getur bjargað mannslífum. En til þess þurfa þeir að vera nægjanlega margir, rétt staðsettir, vera af réttri gerð, vera í lagi og hafa góða rafhlöðu.
Til eru nokkrar gerðir reykskynjara og getur borgað sig að hafa fleiri en eina gerð á heimilinu.
Flestir venjulegir reykskynjarar á heimilum eru jónískir. Jónískir skynjarar nema allar stærðir reykagna. Jónískir skynjarar eru mjög næmir fyrir reyk sem myndast við opinn eld og bregðast fyrr við opnum eldi en optískir reykskynjarar. Þeir eru góðir alhliða reykskynjarar í flest rými á heimilum. Þeir eru hins vegar einnig næmir fyrir raka, hita og brælu frá matargerð og henta því ekki í eða við þvottahús og eldhús.
Optískir skynjarar bregðast einnig skjótt við reyk, en nema betur reyk sem myndast við upphaf glóðarbruna, t.d. í sófum. Þeir eru ekki eins næmir fyrir raka, hita og brælu og henta því t.d. vel í eða við eldhús og þvottahús.
Í alrými er gott að hafa bæði jónískan og optískan skynjara.
Hitaskynjarar nema hita en ekki reyk. Þeir þykja heppilegir til dæmis í bílskúra og eldhús.
Gasskynjarar skynja gas og eru nauðsynlegir þar sem hætta er á gasleka. Þeir sem nota gas til eldunar ættu að setja gasskynjara á sökkul innréttingarinnar. Gasskynjara þarf að endurnýja á fimm ára fresti og þeir koma ekki í stað reykskynjara.
Kolsýringsskynjarargreina þegar óvenjulega mikill kolsýringur myndast. Þeir gefa frá sér hljóð og rautt ljós blikkar. Ef gas brennur þar sem engin loftræsting er brennir það smám saman upp súrefni og um leið eykst kolsýringur í andrúmsloftinu. Hann er ósýnilegur, lyktarlaus og bragðlaus, hefur sljóvgandi áhrif og leiðir til dauða ef ekki er brugðist við í tæka tíð. Mælt er með því að skynjarinn sé settur í herbergi eða nálægt herbergjum sem í eru tæki sem brenna gasi til eldunar eða upphitunar. Best er að setja skynjarann í loft, tvo til þrjá metra lárétt frá gastækinu og 30cm frá vegg, í herbergjum þar sem gasbrennarar eru. Ítarlegar upplýsingar fylgja þegar keyptir eru reykskynjarar og er fólk hvatt til þess að kynna sér þær rækilega. Ávallt ber að velja viðurkenndan búnað.
Upplýsingar af heimasíðu SHS