Fréttir

Fundur félags slökkviliðsstjóra

Aðalfundur Félags slökkviliðsstjóra var haldinn á Hótel Heklu 26. október sl. Auk aðalfundarstarfa flutti Brunamálastjóri erindi um helstu mál sem "brenna" á slökkviliðsstjórum, umræður voru fjörugar og sýndar voru myndir frá helstu brunum síðasta ár, þ.á.m. Hringrásarbrunanum hér á Akureyri. Á laugardeginum var síðan farið vítt um neðri hluta Árnessýslu og margt skemmtilegt skoðað, t.d. allur slökkvibílafloti svæðissins.

Kynning á hitamyndavél

Fyrirtækið Samteigur heimsótti okkur 18. okt. 2007 og kynnti fyrir okkur hitamyndavélar. Með í för var sölumaður frá fyrirtækinu í Þýskalandi og slökkviliðsmaður frá USA sem kynnti notkun vélarinnar, kosti og galla. Kveikt var upp í gámnum okkar til að fá raunverulegar aðstæður.

Sjúkrabílanefnd í heimsókn á Ólafsfirði.

Sjúkrabílanefnd Slökkviliðs Akureyrar fór á föstudaginn 12. okt. í heimsókn til Sigurjóns Magnússonar á Ólafsfirði sem er að smíða sjúkrabíla fyrir Rauða Krossinn. Teknar voru nokkrar myndir í ferðinni.  Myndir IE.

Slökkvilið Akureyrar í samstarf við leikskóla svæðisins

Slökkvilið Akureyrar og leikskólar svæðisins hófu formlegt samstarf í vikunni með undirritun samkomulags um samstarfsverkefni um eldvarnir og fræðslu. Eignarhaldsfélagið Brunabótafélag Íslands hefur látið útbúa vandað og fjölbreytt efni sem slökkviliðin um land allt geta notað í þessu verkefni. Markmið verkefnisins er þríþætt. Í fyrsta lagi að tryggja að eldvarnir í leikskólum sé ávallt með besta móti. Í öðru lagi að tryggja elstu börnunum fræðslu um eldvarnir og kynna fyrir þeim starf slökkviliðsmanna og búnað. Í þriðja lagi að minna foreldra og forráðamenn barnanna á mikilvægi þess að hafa eldvarnir heimilisins í lagi og veita leiðbeiningar um hvernig ná má því marki.

Námskeiðstörn framundan

Mikil námskeiðstörn er nú á haustdögum hjá nokkrum liðsmönnum Slökkviliðs Akureyrar.  Núna eru 3 menn á grunnnámskeiði í sjúkraflutningum (EMT-Basic) sem fram fer á Sjúkrahúsinu á Akureyri á vegum Sjúkraflutningaskólans.  Tveir félagar eru einnig farnir suður til Keflavíkur (varnarsvæði) á 7 vikna námskeið fyrir atvinnuslökkviliðsmenn á vegum Brunamálaskólans.  Í enda október byrjar svo 5 vikna neyðarflutninganámskeið (EMT-I) sem er framhaldsnámskeið fyrir sjúkraflutningamenn.  Fjórir frá SA taka þátt í því námskeiði sem fer fram á Sjúkrahúsi Akureyrar á vegum Sjúkraflutningaskólans.

Eldur í sportbíl við Kristnes

Sunnudagskvöldið 23. september 2007 fékk Slökkviliðið tilkynningu um eld í bíl við afleggjarann að Kristnesi í Eyjafirði. Þegar að var komið var bíllinn alelda en um var að ræða Corvettu sportbíl en mikið er að plastefnum í yfirbyggingu slíkra bíla til að gera þá léttari. Eins og sjá má af myndum er bíllinn ónýtur.

Annríki vegna vatnsleka

Slökkviliðið fékk nokkur útköll í gær vegna vatnsleka.  Vegna vinnu við heitavatnskerfi fór þrýstihögg inn á kerfið með þeim afleiðingum að inntök gáfu sig í nokkrum húsum í Glerárhverfi.  Tjónið var mest í tveimur húsum við Steinahlíð og í Rimasíðu en einnig varð tjón víðar.

Tvö slys á sömu mínútunni.

Af akureyri.net. Óhapp varð í motocrossbraut Kappakstursklúbbs Akureyrar rétt ofan við Akureyri laust eftir klukkan sex á þriðjudagskvöldið. Þar voru á ferð tveir félagar sem voru að koma ofan úr Hlíðarfjalli á fjórhjólum sínum og ákváðu að taka einn hring í brautinni hjá KKA sem endaði með því að annar þeirra steypti hjólinu sínu fram yfir sig. Hann var fluttur á fjórðungssjúkrahúsið en er ekki alvarlega slasaður.

Eldur í sumarbústað

Rétt rúmlega sjö í kvöld kom tilkynning til Slökkviliðsins að eldur væri laus í sumarbústað í Heiðarbyggð ofarlega í Vaðlaheiði.  Dælubíll var sendur á staðinn og í kjölfarið tankbíll og fleiri slökkviliðsmenn.

Bátaskýli brennur

Um 22:20 í gærkvöldi fékk Slökkviliðið tilkynningu um eld í bátaskýli í svonefndum Veigastaðabás, í Vaðlaheiði handan Akureyrar.