Fréttir

Sjúkraflug á Station Nord

Farið var í sjúkraflug 22. ágúst 06 norður til Station Nord sem er dönsk herstöð nyrst á Grænlandi og er það eitt nyrsta byggða ból í heimi. Flogið var með Fokker vél frá Flugfélagi Íslands og tók flugið rúma fjóra tíma hvora leið. Vefritari tók sér far með þeim og smellti af nokkrum myndum.  Fleiri myndir eru á myndasíðu. 

Slökkvilið Akureyrar fær Tohatsu dælu

Slökkvilið Akureyrar er þessa dagana að fá Tohatsu dælu af gerðinni VC72AS.  Þetta er laus dæla sem er staðsett í nýju Scaniunni.  Sá bíll er einmitt sérstaklega hannaður til að nota þar sem vatnsöflun er erfið, t.d. í sveitum og er dælan góð viðbót í lausadælukost Slökkviliðsins.  Fyrir á Slökkviliðið tvær Tohastu dælur, þar af er önnur staðsett í Hrísey, en ennfremur á SA nýja Rosenbauer Fox dælu á kerru.

SA sendir mann í Paramedicnám til Pittsburg (og Hvanndalsbræður fara í frí!)

Nú um helgina hélt Valur Halldórsson frá SA til náms í Pittsburg í Bandaríkjunum.  Hann mun verða þar í vetur í framhaldsnámi í sjúkraflutningum, svokölluðu paramedicnámi.  Þetta er sama nám og Sveinbjörn Dúason hjá SA og allmargir hjá SHS hafa tekið.  Þetta er krefjandi nám þar sem farið er dýpra í fræðin, líffæra- og lífeðlisfræði, lyfjafræði auk meðferð sjúkra- og slasaðra.  Náminu fylgir mikið verklegt nám, bæði á sjúkrahúsum og sjúkrabílum í Pittsburg þar sem mikið gengur á og menn upplifa margt sem þeir sjá kannski aldrei í starfi hér þótt reynslan nýtist engu að síður.  Við óskum Vali góðs gengis í náminu og fylgjumst með honum úr fjarlægð.  Þess má geta að Valur er einn þriggja Hvanndalsbræðra og munu þeir því ekki troða upp meðan á náminu stendur.  Það er ljóst að hann leggur mikið á sig, fjölskyldu sína  og aðdáendur alla til að þetta gangi upp og á Valur heiður skilið að drífa sig í þetta nám.

Verslunarmannahelgin 2006

Nokkuð annríki var um nýliðna verslunarmannahelgi einkum vegna hátíðarinnar "Einnar með öllu" sem haldin var hér á Akureyri.  Samtals eru skráð 57 útköll frá föstudegi til mánudags en á sama tíma í fyrra voru útköllin 37.  Af þessum 57 útköllum voru 34 sjúkraflutningar, þar af 15 neyðarflutningar og 3 sjúkraflug.  Önnur útköll voru 18 og þar af voru 9 vegna elds, oftast í tjöldum en einnig í ruslaílátum, þar af eitt í hraðbanka KB banka.  Slökkviliðið fékk 6 sinnum eldboð frá skemmtistöðum um helgina en í þeim tilfellum var aldrei um raunverulegan eld að ræða.  Einnig var beðið um aðstoð slökkviliðs vegna vatnsleka í Glerárskóla, viðbragð vegna eftirför hjá lögreglu og viðbragðsstaða vegna flugeldasýningar á Íþróttavellinum.