30.11.2007
Í býtið í morgun, föstudaginn 30. nóvember, var óskað eftir aðstoð slökkviliðsins við að dæla olíumenguðum sjó úr flutningaskipinu AXEL sem skemmdist þegar það tók niðri við innsiglinguna við Höfn í Hornafirði í síðustu viku. Skipið liggur við bryggju á Akureyri. Þegar þetta er skrifað hafa 4 slökkviliðsmenn dælt um 100 þúsund lítrum úr lest skipsins síðan í morgun. Dælt er á tanka hjá Olíudreifingu þar sem olían fer í gegnum olíuskiljur.
17.11.2007
Rétt fyrir klukkan 5 í dag (17. nóv.) var tilkynnt um eld í fjósi við bæinn Stóra Árskóg í Dalvíkurbyggð. Strax voru boðuð slökkviliðin á Dalvík og einnig frá Akureyri þar sem ljóst var að um töluverðan eld var að ræða. Björgunarsveitin á Árskógsströnd var einnig kölluð út enda veður með versta móti, norðan 15-20 m. á sek. og blindhríð.
09.11.2007
Lokið var við að heimsækja alla leikskóla á okkar starfssvæði s.l. mánudag. Alls staðar var vel tekið á móti okkur í þessum heimsóknum og ánægja með verkefnið(sjá hér). Farið var yfir hlutverk leikskólanna í því samkomulagi sem skrifað var undir 11. október (sjá hér). Slökkviliðsstjórar á Dalvík og Grenivík óskuðu einnig eftir samvinnu við þetta verkefni hjá þeim og lauk því með heimsókn í leikskólann Leikbæ á Árskógsströnd. Samtals voru því heimsóknir í leikskóla 21 í tengslum við verkefnið.
06.11.2007
Nemendur á atvinnuslökkviliðsmannanámskeiði komu í heimsókn til okkar í síðustu viku og tóku góðan dag í æfingar. M.a. voru settar upp reykköfunaræfingar í "Hótel Akureyri" sem er gamalt 3 hæða hús í miðbænum sem bíður niðurrifs. Eftir miklar og erfiðar æfingar þar komu þeir á slökkvistöðina þar sem búið var að útbúa góða þrautabraut úr rörum sem enduðu með góðri salibuni niður rör sem endaði í "sundlauginni" okkar.
01.11.2007
Aðalfundur Félags slökkviliðsstjóra var haldinn á Hótel Heklu 26. október sl. Auk aðalfundarstarfa flutti Brunamálastjóri erindi um helstu mál sem "brenna" á slökkviliðsstjórum, umræður voru fjörugar og sýndar voru myndir frá helstu brunum síðasta ár, þ.á.m. Hringrásarbrunanum hér á Akureyri. Á laugardeginum var síðan farið vítt um neðri hluta Árnessýslu og margt skemmtilegt skoðað, t.d. allur slökkvibílafloti svæðissins.