Óskar átti mikið samstarf við okkur en var auk þess góður félagi og vinur. Við áttum mikið samstarf á ýmsum sviðum, bæði varðandi skipulagsmál slökkviliðs, eldvarnareftirlit og fleira og var Óskar duglegur að heimsækja okkur og miðla af þekkingu sinni og reynslu um leið og hann var duglegur að kynna sér hvernig aðrir vinna hlutina. Hann var ósérhlífinn, bóngóður, sagði hlutina hreint út en alltaf var stutt í brosið, enda var Óskar mikill húmoristi og hafði gaman af lífinu.
Hann var í forystu í mörgum faglegum málum, hafði þróað frábært forrit fyrir eldvarnareftirlit og var í raun miklu meira en bara slökkviliðsstjóri á Sauðárkrók, heldur var hann leiðandi í mörgum brunavarnarmálum á landsvísu. Okkur slökkviliðsmönnum er því mikill missir í Óskari sem fagmanni.
Miklu meiri er þó missir í persónunni sjálfri. Hrókur alls fagnaðar, ávallt léttur í lund og alltaf að.
Slökkvilið Akureyrar sendir fjölskyldu Óskars, vinum og samstarfsfélögum okkar dýpstu samúðarkveðjur.