Myndir

Opið hús

Núna næstu daga stendur mikið til því Slökkvilið Akureyrar verður 100 ára þann 6. desember, en þann dag árið 1905 skipaði Bæjarstjórn Akureyrar fyrsta Slökkviliðsstjórann.  Af því tilefni verður ýmis dagskrá næstu daga.  Á fimmtudag verður sviðsett umferðarslys þar sem bæjarbúum gefst kostur á að fylgjast með störfum slökkviliðs- og sjúkraflutningamanna á vettvangi.  Á föstudag verður hópakstur allra tækja slökkviliðsins sem endar við Torfunesbryggju þar sem sett verður upp vatnssýning.  Á laugardag verður síðan formleg afmælisathöfn kl. 13 þar sem m.a. verður opnuð ný heimasíða slökkviliðsins, slokkvilid.is,  ennfremur sem kynntur verður nýr bæklingur sem ber nafnið "Eftir áfallið".  Bæklingurinn er til leiðbeiningar fyrir fólk sem lent hefur í eldsvoða eða eignatjóni.  Hann er gefin út af  Slökkviliðinu í samvinnu við tryggingarfélögin sem studdu gerð hans með mjög myndarlegum hætti.    Kl. 13:30-16 verður síðan opið hús þar sem ýmis dagskrá verður í gangi. Vonast er til að sem flestir taki þátt í að gera daginn eftirminnilegan fyrir okkur og aðra. Um kvöldið heldur starfsmannafélagið "litlu jólin" fyrir okkur og í tilefni dagsins hefur verið ákveðið að bjóða  fyrrverandi slökkviliðsmönnum, að vera með.

Eldvarnavika í grunnskólum.

Þá er að ljúka annasamri viku í fræðslu.  Búið er að fara í alla 3.bekki til að fræða börnin um hættur af eldi, rýmingu húsa og að sjá til þessa að það verði skipt um rafhlöðu í reykskynjurum nú í desember á þeirra heimili.

Hættuleg efni-æfingar

Fræðsla og æfing í Sjafnarhúsi verða þriðjudaginn 22. nóvember fyrir B og C. vakt.  Tilgangurinn er að fara yfir þær stærri hættur sem eru á okkar starfssvæði og hvaða búnað við höfum til að eiga við þær hættur.  Sérstaklega er sjónum beint að starfsemi í Sjafnarhúsi og mun æfing miða að því að bregðast við óhöppum þar. Umsjón hafa Finnur Sigurðsson og Magnús V. Arnarsson

Það var skrifað undir samningana í dag

Ráðherra skrifaði undir samninga við Slökkvilið Akureyrar og Mýflug í morgun.

Sjúkraflutningar og sjúkraflug

Heilbrigðisráðherra skrifar undir samninga við Slökkvilið Akureyrar og Mýflug kl. 11:00 laugardaginn 19 nóvember.

Borgir brenndar

Nokkrar myndir frá Borgum Flottar myndir sem sýna vel við hvaða aðstæður slökkviliðsmenn geta þurft að berjast.

Aðstoð við auglýsingagerð

Í dag aðstoðaði slökkviliðið fyrirtækið Saga Film við auglýsingagerð.  Aðstoð okkar fólst í því að dæla vatni inn á eina af snjóbyssum úr Hlíðarfjalli því snjókoma og fannfergi þurfti til að gera auglýsinguna trúverðuga en hún var tekin upp í innbænum. 

Borgir brenna

Á föstudaginn var stóræfing. 26 starfsmenn af 32 tóku þátt í æfingunni, æfingin tókst mjög vel.

Heimsókn félaga okkar

Á laugardag fengum við heimsókn frá Slökkviliði Húsavíkur og Slökkviliði Skagafjarðar. Myndin er af Guðmundi Kára aðst-slökkviliðsstjóra Brunavarna Skagafjarðar, Guðmundur var einn af þeim sem heilsuðu upp á okkur á laugardaginn.

Stór æfing á föstudag

Sprenglærðir slökkviliðsmenn ll + brenna Borgir á föstudaginn. Þetta er lokadagur í æfingarviku þar sem tekið hefur verið á ýmsum þáttum slökkvistarfs fyrir lengra komna.