Myndir

Slys í Hörgárdal

Alvarlegt umferðarslys varð í Hörgárdal nú rétt eftir hádegi þegar tveir bílar skullu saman. Sendir voru tveir sjúkrabílar og dælubíll, með klippur á staðinn en ekki kom til þess að þær voru notaðar.  Ökumenn voru einir í bílunum og slösuðust þeir báðir og voru fluttir með sjúkrabílum á FSA.

Mikið annríki um helgina.

Þjóðhátíðarhelgin var mjög annasöm hjá Slökkviliði Akureyrar. Samtals eru skráð þrjátíu og sex útköll í dagbók slökkviliðsins frá föstudegi til sunnudags. Þar af voru sex eldútköll, átján neyðarflutningar, fjórir almennir flutningar, fimm sjúkraflug, einn vatnsleki og tveir líkflutningar. Auk þess stóðu slökkviliðsmenn vaktir í Boganum á bílasýningu Bílaklúbbs Akureyrar en þess má geta að tveir bílar Slökkviliðsins voru þar til sýnis. Auk þess var fyrsta "Hjólahjálpin" á 17. júní en tveir sjúkraflutningamenn á reiðhjólum, hlöðnum búnaði stóðu vaktina í Lystigarði og miðbæ meðan á hátíðarhöldum stóð.  Körfubíll var einnig til aðstoðar við kassaklifur í miðbænum sem voru hluti skemmtiatriða dagsins.

Hjólahjálp

Slökkvilið Akureyrar setur af stað nýtt verkefni "hjólahjálpin"

Klórgasleki hjá Mjöll-Frigg

Efnaverksmiðja Mjallar-Friggjar var rýmd í morgun eftir að klórgas lak út í rými í kjallara hússins. Það varð með þeim hætti að klórgasslanga gaf sig með þeim afleiðingum að klórgas lak út en starfsmaður verksmiðjunnar náði að skrúfa fyrir lekann áður en Slökkviliðið kom á vettvang. 

Nýtt starfsfólk

Síðustu vikur hafa fimm nýjir starfsmenn hafið störf hjá Slökkviliðinu og sá sjötti er væntanlegur í haust.  Verið er að fylla í stöður sem hafa losnað og eins stefnt að ná þeirri fjölgun sem að hefur verið stefnt.  Ein staðan er í eldvarnareftirliti en hinar í varðliði.

Eldur í Hringrás

Slökkviliðið var kallað út rúmlega 3 í gær, fimmtudag vegna elds í Hringrás sem er með söfnunarsvæði rétt norðan við Krossanes.  Þegar komið var á staðinn logaði gríðarlegur eldur í stórum haug af dekkjum og pressuðu og lausu brotajárni en birgðir af dekkjum og brotajárni voru með mesta móti.  Hæg sunnanátt gerði slökkvistarf allt auðveldara því aðeins er hægt að komast á svæðið úr suðri og einnig lagði reyk ekki yfir bæinn en mikill svartur reykjarmökkur fór ekki framhjá neinum sem úti var á stórum hluta Eyjafjarðar.

Deildarstjóri tækja- og búnaðardeildar SA

Deildarstjóri tækja- og búnaðar er ný staða hjá Slökkviliði Akureyrar.  Undanfarin ár hefur orðið allnokkur aukning og endurnýjun í tækjum og búnaði hjá SA.  Við erum með 7 dælubíla á þremur stöðum,  körfubíl, 4 sjúkrabíla, tvo þjónustubíla á flugvelli, þrjá þjónustubíla í Árstíg, bát, átthjól, eiturefnakerru auk alls smærri búnaðar s.s. klippur, reykköfunartæki og margt fleira.  Allt þetta kallar á gott utanumhald og var löngu tímabært að ráða sérstakan aðila til þess.

Æfing í Hrísey

A og B vaktir Slökkviliðs Akureyrar æfðu í Hrísey ásamt liðsmönnum SA í Hrísey sl. laugardag, 5. maí. Settur var upp vettvangur þar sem var um eld í fiskvinnsluhúsi, hluti hússins alelda en fara þurfti í lífbjörgun í öðrum hluta hússins, sem sagt bæði reykköfun og vatnsöflun. Hörkuæfing !! 

Erill á vaktinni í nótt.

Slökkvilið Akureyrar var kallað út kl 5:37 í morgun vegna elds í gámi við Hótel Norðurland við Geislagötu. Greiðlega gekk að slökkva eldinn.  Þegar því starfi var að ljúka barst önnur tilkynning um eld í ruslagámi við Kaffi Akureyri. Þriðja tilkynningin barst svo mínútu seinna um eld í stórum ruslagámi bak við Skipagötu 12. Tveir dælubílar og aukavakt voru kallaðir út til viðbótar til þess að aðstoða við að slökkva í gámunum.

Olíutengivagn veltur á Öxnadalsheiði.

Tilkynning barst slökkviliðinu kl.08:42, um að tengivagn með olíu hafi oltið í Öxnadalsheiði engin séu slys á fólki og um að minniháttar leka sé að ræða c.a.200-300 lítrar. Náðist samband við ökumann olíubílsins sem staðfestir þetta og segir jafnframt að um skipaolíu sé að ræða.