Námskeiðsmenn munu fá þjálfun og fræðslu í reykköfun, bæði leitartækni og öryggisatriðum, vatnsöflun, hættulegum efnum, slökkviefnum, innbrotstækni, klippuvinnu, flugvélabruna og fleira. Æft verður á ýmsum stöðum í bænum, t.d. í gömlu verksmiðjunum á Akureyri en nú er unnið að niðurrrifi þeirra, einnig verða æfingar í Hrísey með slökkviliðsmönnum þar. Laugardaginn 13. janúar verða síðan útkallsæfingar allan daginn en þá verða keyrðar æfingar sem reyna á marga ólíka þætti.
Þessi dagskrá er m.a. sett upp til að mæta þörf á menntun slökkviliðsmanna en nokkur óvissa er um menntun atvinnuslökkviliðsmanna á árinu, bæði hvenær námskeið verður, í hvaða formi og eins hversu margir geta sótt slíkt námskeið frá SA. Brunamálastofnun er ábyrg fyrir menntun atvinnnuslökkviliðsmanna á Íslandi en síðasta námskeið var unnið af SA, SHS og Brunavörnum Suðurnesja í verktöku fyrir Brunamálastofnun. Ekki hafa náðst samningar um áframhald á þeirri vinnu.