Fyrsta útkallið af þessum þremur var miðvikudaginn 29. mars á veitingahúsið Strikið en þar hafði komist eldur í klæðningu í vegg í eldhúsi. Veitingastaðurinn var rýmdur en vel gekk að slökkva eldinn.
Annað brunaútkall var laugardagskvöldið 1. apríl í Reynilund 1 en þar hafði kviknað í stýriboxi í gufubaði og eldur komist í loftklæðningu. Eldurinn var slökktur en nokkuð þurfti að rífa til að komast að glóð í millilofti. Þarna urðu nokkrar skemmdir.
Þriðja útkallið varð svo mánudaginn 3. apríl en þá var tilkynnt um mikinn eld í íbúðarhúsi við bæinn Hallgilsstaði í Fnjóskadal. Bærinn er á svæði Slökkviliðs Þingeyjarsveitar en ákveðið var að senda liðsauka frá Akureyri. Fóru sex menn á sjúkrabíl og tveimur dælubílum. Annar dælubíllinn er jafnframt lagnabíll og hinn er tankbíll. Þegar komið var á staðinn var Slökkvilið Þingeyjarsveitar búnir að koma dælum í bæjarlækinn og slökkvistarf hafið. SA aðstoðaði við starfið og lagði m.a. til reykkafara. Þarna varð mikið tjón, íbúðarhús og innbú ónýtt af völdum elds, reyks og hita. Þetta útkall sýnir að slökkviliðin á svæðinu þurfa að hafa gott samstarf og geta stutt hvert við annað þegar mikið liggur við. Slökkvilið Þingeyjarsveitar er vel tækjum búið, með nýjan Ford F-450 dælubíl frá MT bílum, auk "Nallans", módel ´68, sem áður þjónaði sem bíll Brunavarna Eyjafjarðar (staðsettur hjá Slökkviliði Akureyrar). Ennfremur eru þeir með gamlan tankbíl sem útbúinn er með dælu.