Nokkur orð frá slökkviliðsstjóra um árið sem er að líða

Við höfum verið mjög lánssamir gagnvart útköllum bæði í sjúkraflutningum og slökkvistarfi. Enginn alvarleg slys hafa orðið á slökkviliðsmönnunum okkar, árangur í útköllum góður og tjón vegna elds, reyks eða vatns hefur verið í algjöru lágmarki.

Það sem ég vil þakka þessu góða ári er að íbúar virðast almennt vera vel upplýstir og grandvarir gagnvart þeim hættum sem skapast við opinn eld og brunavarnir almennt góðar á heimilum. Þetta gerir það að við höfum fengið tækifæri og getað brugðist við á fyrstu stigum þegar kallið berst, með góðum árangri. Árangurinn liggur ekki aðeins í því að slökkva eldinn. Árangurinn starfsins liggur í því að koma í veg fyrir manntjón, lágmarka slysahættu á fólki og tilfinningalegt og fjárhagslegt tjón sem fólk verður fyrir ef eldurinn nær að breiðast út. Í flestum tilfellum þar sem eldur nær að breiðast út á heimilum verður fólk fyrir óbætanlegu tjóni á munum og myndum svo eitthvað sé nefnt. Forvarna starf okkar tel ég í ágætis fyrirkomulagi, samstarf við byggingadeildir sveitarfélaganna sem við þjónustum og íbúa góð.

Ég vona að árinu ljúki jafn farsællega og það hefur reynst til þessa. Þess ber þó að geta að þessi stutta samantekt mín er mjög takmörkuð og tekur aðeins á störfum okkar heilt yfir. Þjónusta slökkviliðsins er þess eðlis að það er aldrei svo að við getum ekki gert betur, meðan við eru óþreytandi í því að ná betri árangri í því sem ætlast er til af okkur erum við á réttri leið.

Þó að ég telji að slökkviliðið hafi náð góðum árangri í því sem við höfum getað fengið breytt eiga margir um sárt að binda eftir árið vegna missis ástvina vegna slysa og veikinda. Ég hugsa til þessa fólks og votta því alla samúð mína.

 Slökkviliðsstjóri