Námskeið undanfarið

Þær Martha Óskarsdóttir, eldvarnareftirliti og Hulda Þorgilsdóttir í varaliði sækja nú grunnnámskeið í sjúkraflutningum en það stendur fram í apríl.

Þorlákur S. Helgason sótti námskeið Brunamálastofnunar "Þjálfunarstjóri yfirtendrun" sem haldið var í Reykjanesbæ 18.-20. febrúar sl.

Þeir Alfreð Birgisson og Valur Halldórsson sóttu námskeiðið "Sérhæfð endurlífgun I" ILS (Immediate Life Support) auk þess sem Gunnar Björgvinsson kenndi á sama námskeiði.

Þetta námskeið, Immediate Life Support  er eins dags námskeið þar sem markhópurinn hefur m.a. að geyma sjúkraflutningamenn. Markmiðið með námskeiðinu felst í því að gera þátttakendur færa um að greina fyrstu einkenni hjartabilunar, beita helstu aðgerðum til að koma í veg fyrir hjartastopp og framkvæma grunnendurlífgun þ.e. hjartahnoð, öndunaraðstoð og hjartarafstuð með sjálfvirku eða hálfsjálfvirku hjartastuðtæki, þar til sérhæfð aðstoð berst. Námskeiðið er einnig aðlagað að nemendahópnum m.t.t. auka innleggs s.s. lyfjagjafa o.þ.h. Gert er ráð fyrir að þetta námskeið verði sett upp sem endurmenntun sjúkraflutningamanna fyrir næsta skólaár.
 
Þeir Gunnar A. Vilhjálmsson, Gauti Þór Grétarsson og Jón Sverrir Friðriksson luku verklegri þjálfun á neyðarbíl SHS og var það síðasti hluti af Neyðarflutninganámskeiði sem þeir hafa setið síðan í haust.  Þeir luku einnig námskeiði fyrir þá sem sinna sjúkraflugi og eru þar með komnir í sjúkraflugsveit SA og FSA.  Fjórði nemandinn í þjálfun, Þorgeir G. Ólafsson varð fyrir því óhappi að slasast og nær því ekki að ljúka þjálfun fyrr en í vor.
 
Starfsmenn SA sinna einnig margvíslegri kennslu fyrir aðra aðila, t.d. eru nokkrir starfsmenn að kenna á Grunnámskeiði í sjúkraflutningum og aðrir kenndu á ALS námskeiði fyrir FSA.
 
Menntun slökkviliðs- og sjúkraflutningamanna verður sífellt fjölbreyttari og gerir miklar kröfur til starfsmanna.  Árangurinn skilar sér í betri þjónustu við borgaranna, bættum lífslíkum og minni áhættu.