Á föstudaginn kl: 16:08 var tilkynnt um eld í Hamragerði 6, þar sem verið var að vinna við að leggja þakpappa, en eldur var kominn í timburklæðningu í þaki. Þegar slökkviliðið kom á vettvang höfðu iðnaðarmenn nýlokið við að slökkva eldinn með handslökkvitækjum og komu þannig í veg fyrir að eldurinn breiddist út. Skemmdir urðu ekki miklar.
Klukkan 19:25 var síðan tilkynnt um sinueld í Kjarnaskógi fyrir ofan gróðrarstöðina. Dælubíll fór á vettvang og slökkti eldinn sem var á takmörkuðu svæði.
Mesta annríkið í sjúkraflutningum var aðfaranætur laugardags og sunnudags eða samtals sextán flutningar. Flestir þessara flutninga tengdust skemmtanahaldi og líkamsárásum en það virtist vera sérstakt sport einhvers hóps manna á þessari helgi að berja á náunganum og valda líkamsmeiðingum.
Á laugardaginn klukkan 18:10 var tilkynnt um eld í gasgrilli við orlofsbyggðina að Illugastöðum í Fnjóskadal. Haft var samband við staðarhaldara sem kannaði málið og hafði þá tekist að slökkva eldinn þannig að ekki kom til langferða dælubíls.
Á sunnudeginum 17. júní klukkan 15:33 var tilkynnt um eld í tjaldvagni á tjaldsvæði við Hamra. Var sendur dælubíll á staðinn og slökkti hann eldinn.
Þeir viðburðir sem tengdust "Bíladögum", þ.e. "burnout" keppni, götuspyrna og bílasýning gengu vel og urðu ekki tilefni til afskipta slökkviliðs á neinn hátt. Forsvarsmenn Bílaklúbbs Akureyrar áttu gott samstarf við Slökkviliðið við undirbúning þessara viðburða og lögðu mikla áherslu á að öryggismál væru í lagi.