Krefjandi æfingar í vítisviku.

Á mánudag voru reykköfunaræfingar með blindmaska þar sem æfð var lífbjörgun og leitartækni.  Á þriðjudag var síðan bóklegt og verklegt í hættulegum efnum.  Eftir hádegi á þriðjudag voru síðan bóklegar og verklegar æfingar í klippuvinnu.  Á miðvikudagsmorgun var síðan kveikt í skrifstofuhúsnæði gömlu Sambandsverksmiðjanna, fyrst fylgst með yfirtendrun og þróun innanhússbruna og síðan kveikt í hæðinni og auðvitað réðust nýliðarinn inn og slökktu eldinn á mettíma þrátt fyrir mikinn reyk og hita.  Eftir hádegið var síðan kennsla í vatnsöflun og verklegar dæluæfingar í kjölfarið.  Í gærmorgun voru síðan sett upp slys á tveim fjölförnum stöðum í bænum og nýliðar leystu þau verkefni.  Eftir hádegi í gær var síðan bókleg fræðsla í slökkviefnum og einnig farið í flugvélaelda.  Það endaði síðan með slökkviæfingu á æfingasvæði okkar á Akureyrarflugvelli í gærkvöldi.
Í morgun héldu svo æfingadrengirnir ásamt 5 leiðbeinendum í ferð út í Hrísey þar sem við höfum gamalt íbúðarhús utan við þorpið þar sem við getum æft reykköfun.  Þar verða æfingar í allann dag þar sem slökkviliðsmenn í Hrísey munu taka þátt í æfingunum.
Á morgun lýkur svo vikunni með heilum degi með útkallsæfingum þar sem reynir á alla þætti sem þeir hafa fengist við í vikunni.

Þetta hefur vakið nokkra athygli í bænum, sjá m.a.
frétt í sjónvarpinu
og
frétt á akureyri.net.