Vikudagur fjallaði á dögunum um þessi mál og ritaði eftirfarandi grein.
Sjúkraflug hefur aukist nokkuð á þessu ári frá því sem var í fyrra og stefnir í að þau verði í kringum 500 talsins á árinu. Sökkvilið Akureyrar annast sjúkraflutninga á svæði Heilsugæslustöðvar Akureyrar á sjúkrabílum og mannar einnig allt sjúkraflug í landinu, en um er að ræða samstarf þriggja aðila.
Mýflugs leggur til flugvél, Slökkviliðið sendir ávallt einn eða tvo neyðarflutningamenn í flug og Sjúkrahúsið á Akureyri einn lækni ef eftir því er óskað. Slökkvilið Akureyrar hefur mannað sjúkraflug frá árinu 1997 og hefur slíkum ferðum fjölgað eftir því sem árin líða.
Þorbjörn Haraldsson slökkviliðsstjóri Slökkviliðs Akureyrar segir að í kjölfar áforma ríkisstjórnar um stórfelldan niðurskurð til heilbrigðisþjónustu á landsbyggðinni verði menn að búa sig undir að sjúkraflugum fjölgi umtalsvert og einnig flutningum með sjúkarbílum. „Við fórum í tæplega 400 sjúkraflug á síðasta ári en árin á undan voru þau í kringum 500 í allt á ári. Það sem af er þessu ári höfum við farið um 370 sjúkraflug með 399 sjúklinga og mér sýnist við stefna í að fara um 500 flug á þessu ári," segir Þorbjörn.
Hann segir að enn sem komið er ráði Slökkviliðið vel við verkefnið og geti tekið á sig einhverja aukningu. „En ef aukningin verður umtalsverð eins og búast má við, það er ef heilbrigðisstofnanir draga mjög úr starfsemi sinni þá þarf að fara í kostnaðarmeiri aðgerðir til leysa þetta. Það þyrfti þá að koma til önnur flugvél í sjúkraflugið með tilheyrandi kostnaði í áhafnarmönnun. Þá má auðvitað líka nefna að maður veltir því fyrir sér hvert eigi að fara með sjúklingana, er búið að gera ráð fyrir þessari aukningu á stærri sjúkrahúsunum" segir hann. Engin umræða hafi farið fram um það, „en ég vona svo sannarlega að menn finni aðrar lausnir en stórfelldar lokanir rúma á heilbrigðisstofnunum út um land."