Áhöfn fyrsta dælubíls lagði fyrst á það áherslu að bjarga þeim tækjum sem næst eldinum voru og tókst með naumindum að bjarga tveimur stórum tækjum, skurðgröfu og krabbakló, en krabbaklóinn var síðan lykiltæki í að ná haugnum í sundur til að hægt væri að slökkva hann. Slökkviliðsmenn kældu tækin meðan starfsmenn Hringrásar komu þeim undan eldinum. Fljótlega var síðan búið að leggja lögn á næsta brunahana, um 300 m. leið, en stór brunahani er við olíubirgðastöðina í Krossanesi. Lagðar voru frá honum þrjár 3" lagnir í dælubíl 213 (nýja Scanian) sem er með 5000 lítra dælu, frá honum voru síðan lagðar eins lagnir í tvo 3000 lítra "monitora" eða fasta stóra stúta sem gefa mikið vatn. Þannig tókst fljótlega að koma í veg fyrir að eldurinn bærist í út í annan stóran haug. Einnig var hafist handa við að koma dælum í sjó og afla meira vatn. Dælubíl 216 (Ford 600) var ekið niður í fjöru (niður snarbrattan 20 metra stall) og lagðar frá honum aðrar tvær 3" lagnir sem síðan var raðdælt í Rosenbauer Fox dælu og þaðan í dælubíl 217 (MAN tankbíll ) sem síðan dældi í tvo stóra stúta og tvo minni monitora. Samtals var leið í sjó um 600 metrar.
Þannig tókst að koma um 7000-8000 lítrum af vatni og sjó á mínútu og dugði það til að slá á mesta eldinn. Einnig var Tohatsu dæla notuð með dælubíl 216 því einu sinni þurfti að færa hann vegna sjávarfalla og einnig þurfti að hreinsa barkahaus. Eftir að áætlunarflugi lauk kom einnig MAN dælubíll af flugvelli og fór einar 10 ferðir með um 6000 lítra í hverri ferð og dældi því í gegnum monitor á þaki en sá bíll er mjög öflugur. Þegar þetta er skrifað, um 14 tímum eftir að útkallið hófst er ennþá verið að dæla um 4000 lítrum á mínútu en ennþá rýkur nokkuð úr haugnum. Áætlað er að um 5 -6 milljón lítrum af vatni og sjó hafi þegar verið dælt á eldinn.
Í upphafi útkalls keyrðum við fram á stóran súrefniskút við Krossanesbraut sem greinilega hafði fallið af bíl og frussaðist úr honum súrefni af miklum krafti. Þurftum við því að loka talsverðu svæði meðan kúturinn tæmdist en hann hafði fallið af bíl starfsmanns Hringrásar þegar hann var að reyna að komast á staðinn.
Um 40 menn úr Slökkviliði Akureyrar, varaliði og hjálparliði slökkviliðsins úr Eyjafirði hefur unnið að slökkvistarfi og ennþá eru um 12 manns að störfum. Allur búnaður hefur virkað fullkomlega og ekkert stórvægilegt komið upp á. Einnig hafa starfsmenn Hringrásar og Tætingar unnið sleitulaust með tækjum að færa til í haugnum. Finnur Aðalbjörnsson verktaki hefur einnig verið með menn og tæki til að veita affallsvatni rétta leið einnig sem starfsmenn Olíudreifingar lánuðu okkur búnað úr slökkvibúnaði olíubirgðarstöðvarinnar í Krossanesi auk þess sem þeir sáu dælum og bílum fyrir eldsneyti. Lögreglan sá um lokanir og rannsókn og átti gott samstarf við Slökkviliðið. Norðurorka sá til þess að við fengjum allann þann þrýsting á brunahana sem hægt var með því að minnka þrýsting á önnur hverfi. Mjög mikil vinna bíður slökkviliðsmanna við þrif og þvott á slöngum og öðrum búnaði. Búast má við að sú vinna taki lungan úr helginni.
Við teljum að slökkvistarf hafi tekist mjög vel og allir sem að þessu komu hafi skilað mjög góðu starfi.
Sjá einnig myndir á myndasíðu.