Slökkviliðsmönnunum var skipt upp í 5 hópa, einn hópur með lausar dælur við stífluna í Glerá og dældu vatni í tankbíl þar sem var annar hópur. Tankbíllinn fæddi síðan dælubíl á eldstað. Á eldstað var einn hópur í reykköfun en annar hópur tryggði viðbragð gagnvart hugsamlegum útköllum í bænum. Fimmti hópurinn var á slökkvistöðinni við að tryggja viðbragð á sjúkrabíl og hleðslu á reykköfunarkútum. Hóparnir skipu um hlutverk á 40 mínútna fresti. Það fer ekki á milli mála að slökkviliðsmenn Slökkviliðs Akureyrar eru eins og slökkviliðsmenn gerast bestir, agaðir, ákveðnir, hraustir menn. Það var glæsilegt að fylgjast með slökkviliðsmönnunum með skólastjóra Brunamálastofnunar mér við hlið, allar áætlanir stóðust. Menn gengu ákveðið til verka, nákvæmlega eins og fyrir þá hafði verið lagt. Óvæntar uppákomur voru leystar án nokkurra vandkvæða og allar tímasetningar stóðust. Veikasti hlekkurinn á öllum stóræfingum "fjarskiptin" voru til að toppa þetta, markviss skilaboð og engar málalengingar, öllum voru ljós skilaboðin og enginn misskilningur. Varðstjórarnir okkar Jón Knutsen og Viðar stjórnuðu og stilltu upp björgunarstarfinu á glæsilegan og eftirminnilegan hátt, ýmist voru þeir í hlutverki fórnarlambs eða stjórnanda.
Bóklegi þáttur æfingarinnar stóð frá kl. 9:00 til 14:00. Verklegi þátturinn stóð frá kl. 14:00 til kl. 01:30, þá voru síðustu menn á leið heim eftir frágang á slökkvistöðinni. Eftir helgi verður gerð samantekt á því hvernig tókst til.