Við fengum tæplega 300 leikskólabörn til okkar í heimsókn. Þessi heimsókn er þakklætisvottur frá slökkviliðinu til barnanna fyrir þá góðu vinnu sem þau sinntu í leikskólunum sínum í vetur. Þau tók þátt í verkefni sem við göllum Logi og Glóð. Logi og glóð er verkefni sem er unnið í samvinnu við Eignarhaldsfélag Brunabótafélags Íslands. Það eru elstu börnin í leikskólunum sem vinna að þessu verkefni með okkur og skoða leikskólann sinn einu sinni í mánuði, þar sem farið er yfir nokkur öryggisatriði í leikskólunum. Verkefnið er í rauninni tvískipt þar sem við byrjum á því að heimsækja leikskólana á haustin og ræðum við starfsfólkið sem kemur til með að sjá um verkefnið fyrir leikskólans hönd. Í október fórum við síðan í heimsókn í alla leikskólana á stór Akureyrarsvæðinu (Svalbarðseyri, Hrafnagil, Hörgárbyggð með líka). Tveir slökkviliðsmenn heimsóttu börnin og kynntu þeim verkefnið og sýndu þeim svo slökkvibifreið í framhaldinu. Alls heimsóttum við 17 leikskóla í þessu verkefni í vetur.
Við endum síðan veturinn á því að bjóða leikskólabörnunum í heimsókn á slökkvistöðina. Þar sem að þau glímdu m.a. við þrautabraut, fengu að sprauta vatni og skoðuðu búnað liðsins. Grillaðar pylsur voru í boði og ekki var verra að komast í rútuferð til og frá svæðinu.
Við viljum þakka öllum þessum flottu börnum og starfsfólki leikskólanna fyrir frábæran dag og fyrir samveruna í vetur.