Slökkviliðið sendi 5 menn á tveimur dælubílum á staðinn með um 13 þúsund lítra af vatni en jafnframt var hjálparlið ræst út í Eyjafjarðarsveit. Í hjálparliðinu eru bændur á svæðinu og mættu þeir m.a. með 8 þúsund lítra haugsugu en einnig á dráttarvélum með moksturstækjum til að tæta niður rúllurnar en það er mikil vinna og seinleg að ná rúllunum í sundur til að komast fyrir eld í þeim. Slökkvistarfi lauk ekki fyrr en rúmlega 2 og var frágangi lokið um kl. 4. Frost var um 10 gráður og stillt veður.
Eins og áður segir fóru 5 menn frá SA á tveimur dælubílum, notað var um 33 þúsund lítrar af vatni, auk 16 þúsund lítra af "grænu froðunni" sem er betur þekkt sem mykja. Auk þess komu 7 bændur úr hjálparliði Eyjafjarðarsveitar með 3 dráttarvélar, tvær með moksturstækjum og ein með mykjudreifara, auk skotbómulyftara með krabbakló en rífa þurfti heystabban alveg niður til að ráða niðurlögum eldsins.