Eldur í Fjólugötu 18

Kl. 9:06 voru fyrstu reykkafara komnir inn í húsið. Stigahús var blindað af reyk og gler í íbúðarhurð annarrar hæðar gaf sig vegna hita þegar reykkafarar komu að, íbúðin við það að verða alelda. Reykkafararnir skutu vatnsúða inn í íbúðina til að kæla reykinn, en héldu án tafa upp á efri hæðina til að leita að fólki með tilliti til þess að okkar megin markmið er lífbjörgun. Þó svo að ekki hafi legið fyrir upplýsingar um fólk í húsinu. 
Reykkafarar brutu upp hurðina á íbúðinni á efstu hæðinni og fundu þrjú börn 2 ára, 4 ára og 9 ára sofandi, og einn fullorðinn í töluverðum reyk. Reykkafararnir tóku sitthvort barnið í fangið og faðirinn það þriðja. Föðurnum og börnunum var bjargað út stigaganginn sem var svartur af reyk og þau flutt á slysadeild til aðhlynningar. Á þessari stundu var hafið slökkvistarf á miðhæðinni og því lokið kl. 9:25. Íbúðin er mjög illa farinn af eldi og reyk en vatnstjón ekki neitt.
Það sem ætti að vera athyglisvert við þennan atburð er að allt gekk eins vel og hugsast getur, miðað við aðstæður !

  • Fólkið á miðhæðinni sem varð vitni að eldsupptökunum forðaði sér út án  tafar.
  • Slökkviliðið var aðeins 3 mínútur á staðinn.
  • Reykkafarar voru komnir inn í húsið á innan við 6 mínútum.
  • Reykkafarar slóu á mesta eldinn án þess að tefjast við það.
  • Reykkafara lögðu áherslu á leit og lífbjörgun án þess að hafa upplýsingar um fólk í húsinu.
  • Reykkafarar náðu að bjarga fólkinu út stigagang þrátt fyrir það að íbúðarhurð á annarri hæð hafði gefið sig vegna elds.
  • Slökkviliðsmenn slökktu og hindruðu útbreiðslu eldsins þrátt fyrir að aðstæður þar sem eldurinn átti greiða leið upp á efri hæðina.

    Þarna hefur orðið mikið tjón á eignum og persónulegum munum sem ekki verður bætt, en það er líka ljóst að þarna björguðust 4 mannslíf svo ekki mátti miklu muna.
    Þá er mér ofarlega í huga að björgun þessa fólks ber að þakka slökkviliðsmönnunum okkar sem ég er afskaplega stoltur af og ekki síður framsýni bæjaryfirvalda á Akureyri. Fyrir mikinn metnað í að veita Akureyringum sem besta þjónustu með uppbyggingu slökkviliðsins og hina margvíslegu þjónustu þess.

    Slökkviliðsstjóri