Landfræðileg staða Akureyrar gagnvart landsbyggðinni er eins og best er á kosið. Það er enginn tilviljun að á Akureyri er miðstöð sjúkraflugs á landinu. Í ár gerir Slökkvilið Akureyrar ráð fyrir að senda sjúkraflutningamann og lækni af sjúkrahúsinu í c.a 340 til 360 flug með sérbúinni sjúkraflugvél sem staðsett er á Akureyri. Miðstöð sjúkraflutninga á Norðurlandi er á Akureyri og sjúkraflutningaskóli landsins er rekinn af miklum myndarskap af fjórðungssjúkrahúsinu á Akureyri. Uppbygging Slökkviliðs Akureyrar og hinir mörgu þættir öryggisþjónustu slökkviliðsins hafa verið byggðir upp af bæjaryfirvöldum á mjög metnaðarfullan hátt. Í dag eru 34 fastar stöður í Slökkviliði Akureyrar, menntunarstig hátt, búnaður góður og vakt allan sólarhringinn með tilliti til þess að manna sjúkraflug og sinna annari bráðaþjónustu öllum stundum. Læknar fjórðungssjúkrahússins eru þegar með viðbragðs fyrirkomulag sem hefur reynst mjög vel gagnvart þessari þjónustu. Er ekki eðlilegt að nýta menntun, þekkingu, reynslu og landfræðilega stöðu sem hér er. Ef ekki, hver eru þá rökin fyrir því að gera það ekki ?