Fjölgun á sjúkraflugi

Slökkvilið Akureyrar hefur farið í 452 sjúkraflug það sem af er þessu ári, en það er sami fjöldi og allt árið í fyrra. Séu bornir saman sömu mánuðir þá hefur verið farið í 40 fleiri flug en á sama tíma í fyrra. Að sama skapi hefur sjúklingum fjölgað í sjúkraflugi en á þessum tíma í fyrra höfðu verið fluttir 423 sjúklingar en nú hafa verið fluttir 490 sjúklingar það sem af er árinu.

Slökkvilið Akureyrar hefur stundað sjúkraflug allt frá því 1997 en þá voru sjúkraflug 77 talsins. Fjöldi ferða jókst jafnt og þétt fram til ársins 2003 en þá voru þau orðin 271 á ársgrundvelli. Gríðarleg sveifla varð á milli 2005 og 2006 en þá fjölgaði ferðum sjúkraflugs um 138 á milli ára.

Sú þjónusta sem veitt er í sjúkraflugi á vegum Slökkviliðs Akureyrar hefur gefið það góða raun að kostir flugsins eru ótvíræðir. Fjórðungs sjúkrahúsið á Akureyri sendir lækni með í þau flug sem þess er óskað og Mýflug sér um Flugvélakost og flugmenn.

Það er ljóst að þetta ár verður enn eitt metárið í fjölda ferða og fjölda sjúklinga sem staðfestir nauðsyn þjónustunar í nútíma samfélagi.

Þorbjörn Haraldsson

Slökkviliðsstjóri