Fréttir

Mikið Annríki í sjúkraflugi

Mikið annaríki hefur verið í sjúkraflugi hjá Slökkviliði Akureyrar, Í júní mánuði var farið í 48 sjúkraflug á 30 dögum.

Slökkviliðsmenn á námskeiði í Noregi

Tveir liðsmenn Slökkviliðs Akureyrar, þeir Þorlákur S. Helgason og Alfreð Birgisson, fóru nú í júní á fimm daga námskeið fyrir flugvallarslökkviliðsmenn á Gardemoen flugvelli við Osló á vegum Flugstoða og Slökkviliðs Akureyrar.  Þessir starfsmenn hafa einmitt séð um flugvallarfræðslu fyrir starfsmenn Flugstoða á landsbyggðarflugvöllum samkvæmt samningi SA og Flugstoða en Þorlákur er umsjónarmaður flugvallarfræðslunnar.

Slökkviliðsmenn á frívakt bjarga 6 ára dreng frá drukknun.

Sex ára gamall drengur var hætt kominn í Sundlaug Akureyrar á mánudag í síðustu viku en sundlaugargestir sáu til drengsins sem var meðvitundarlaus á botni laugarinnar. Drengnum var strax bjargað á land og svo vel vildi til að á staðnum voru tveir menn úr Slökkviliði Akureyrar, auk hjúkrunarfræðings og tveggja lækna.  Jón Knutsen slökkviliðs- og sjúkraflutningamaður stjórnaði endurlífgun en Jón er menntaður í björgun á sundstöðum og hefur m.a. kennt sunlaugarstarfsfólki og stjórnað æfingum þeirra undanfarin ár.Drengurinn komst fljótlega til meðvitundar og var fluttur á FSA.  Hann fékk að fara heim daginn eftir og heilsast vel. 

Segjum stopp!!

Félag hjúkrunarfræðinga í samstarfi við slökkviliðs- og sjúkraflutningamann efna til fjöldagöngu gegn umferðarslysum til að minnast þeirra sem farist hafa í umferðinni og sýna samhug og samstöðu með þeim sem slasast hafa alvarlega. Frumkvæði að þessari göngu kemur frá hjúkrunarfræðingum við Landspítala háskólasjúkrahús en hjúkrunarfræðingar og sjúkraflutingamenn hér norðan heiða hafa slegist í för með samsvarandi göngu þannig að gengið verður samtímis í Reykjavík og á Akureyri.  Markmiðið er að vekja þjóðina til umhugsunar um alvarlegar afleiðingar hraðaksturs og þess að aka bíl undir áhrifum áfengis, fíkniefna eða lyfja. Gengið verður af stað þriðjudaginn 26. júní 2007 klukkan 17:00 frá þyrlupalli FSA (sunnan við FSA).

Slys í Hörgárdal

Alvarlegt umferðarslys varð í Hörgárdal nú rétt eftir hádegi þegar tveir bílar skullu saman. Sendir voru tveir sjúkrabílar og dælubíll, með klippur á staðinn en ekki kom til þess að þær voru notaðar.  Ökumenn voru einir í bílunum og slösuðust þeir báðir og voru fluttir með sjúkrabílum á FSA.

Mikið annríki um helgina.

Þjóðhátíðarhelgin var mjög annasöm hjá Slökkviliði Akureyrar. Samtals eru skráð þrjátíu og sex útköll í dagbók slökkviliðsins frá föstudegi til sunnudags. Þar af voru sex eldútköll, átján neyðarflutningar, fjórir almennir flutningar, fimm sjúkraflug, einn vatnsleki og tveir líkflutningar. Auk þess stóðu slökkviliðsmenn vaktir í Boganum á bílasýningu Bílaklúbbs Akureyrar en þess má geta að tveir bílar Slökkviliðsins voru þar til sýnis. Auk þess var fyrsta "Hjólahjálpin" á 17. júní en tveir sjúkraflutningamenn á reiðhjólum, hlöðnum búnaði stóðu vaktina í Lystigarði og miðbæ meðan á hátíðarhöldum stóð.  Körfubíll var einnig til aðstoðar við kassaklifur í miðbænum sem voru hluti skemmtiatriða dagsins.

Hjólahjálp

Slökkvilið Akureyrar setur af stað nýtt verkefni "hjólahjálpin"

Klórgasleki hjá Mjöll-Frigg

Efnaverksmiðja Mjallar-Friggjar var rýmd í morgun eftir að klórgas lak út í rými í kjallara hússins. Það varð með þeim hætti að klórgasslanga gaf sig með þeim afleiðingum að klórgas lak út en starfsmaður verksmiðjunnar náði að skrúfa fyrir lekann áður en Slökkviliðið kom á vettvang. 

Nýtt starfsfólk

Síðustu vikur hafa fimm nýjir starfsmenn hafið störf hjá Slökkviliðinu og sá sjötti er væntanlegur í haust.  Verið er að fylla í stöður sem hafa losnað og eins stefnt að ná þeirri fjölgun sem að hefur verið stefnt.  Ein staðan er í eldvarnareftirliti en hinar í varðliði.

Eldur í Hringrás

Slökkviliðið var kallað út rúmlega 3 í gær, fimmtudag vegna elds í Hringrás sem er með söfnunarsvæði rétt norðan við Krossanes.  Þegar komið var á staðinn logaði gríðarlegur eldur í stórum haug af dekkjum og pressuðu og lausu brotajárni en birgðir af dekkjum og brotajárni voru með mesta móti.  Hæg sunnanátt gerði slökkvistarf allt auðveldara því aðeins er hægt að komast á svæðið úr suðri og einnig lagði reyk ekki yfir bæinn en mikill svartur reykjarmökkur fór ekki framhjá neinum sem úti var á stórum hluta Eyjafjarðar.