Æft var viðbragð við stóru rútuslysi þar sem 12 manns áttu að hafa slasast alvarlega og snerist æfingin um að greina þessa 12 á FSA og flytja þá síðan um borð í flugvél SNAM sem flutti þá til Stokkhólms. Þeir sem léku sjúklingana komu frá Svíþjóð. Þeir voru sminkaðir og settir í hlutverk sín í kennslustofu Sjúkraflutningaskólans á FSA en síðan fluttir þaðan á Slysadeild þar sem þeir voru greindir og ýmist sendir á gjörgæslu eða undirbúnir fyrir frekari flutning.
Hlutverk Slökkviliðs Akureyrar og Súlna var annars vegar að flytja börur , búnað, sænsku læknana og hjúkrunarfræðingana frá flugvelli á FSA og síðan að flytja sjúklingana frá FSA á flugvöll. Það gekk vel enda voru notaðir til þess fjórir sjúkrabílar og fjórir björgunarsveitarbílar, en þess má geta að börur fyrir gjörgæslusjúklinga vega um 80 kíló án sjúklings en hverjar börur eru í raun lítil gjörgæsludeild fyrir einn sjúkling með öllum hugsanlegum búnaði.
Æfingin gekk vel og voru forsvarsmenn Svíanna hæstánægðir með frammistöðu heimamanna.
SNAM verkefnið er hugsað sem möguleiki til að að flytja hóp mikið slasaðra um langan veg og hefur verið notað bæði eftir Tsumami flóðbylgjuna, sprengingar í Mumbai á Indlandi 2008 og fl. Þetta er samstarf aðila í viðbragðsþjónustu í Svíþjóð, sænska Samgönguráðuneytissins og flugfélagsins SAS og felst í því að venjuleg Boeing 737 farþegaþota er tekin og breytt í fljúgandi sjúkrahús eftir fyrirfram ákveðnu og æfðu skipulagi. Vélin getur flutt 6 gjörgæslusjúklinga, 6 aðra sjúklinga í börum og síðan 20 sjúklinga eða aðstandendur í sætum. Áhöfnin telur 9 lækna, 11 hjúkrunarfræðinga auk nokkura stjórnenda og sjúkraflutningamanna samtals um 25 manns ásamt flugmönnum.
Æfingin um síðustu helgi er hluti af reglulegum æfingum þessarar sveitar. Þetta var lærdómsríkt fyrir okkur og mjög mikilvægt að eiga gott samstarf , sérstaklega ef kæmi til þess að hér yrði slys af þeirri stærðargráðu að flytja þyrfti sjúklinga á sjúkrahús erlendis í einhverjum mæli. Eins er þetta möguleiki ef hópur Íslendinga myndi slasast eða veikjast alvarlega á fjarlægum slóðum.