Slökkvilið Akureyrar fær gjöf frá Mýflugi

Flugfélagið Mýflug færði Slökkviliði Akureyrar Lukas hjartahnoðtæki í gær 3.des.

Tækið mun nýtast í útköllum hjá slökkviliðinu bæði í sjúkraflugum en einnig hér á þjónustusvæði okkar.

Eftirfarandi texti er fenginn að láni úr grein Þóris Svavars Sigurðssonar, í læknablaðinu.

Greinina í heild sinni er hægt að finnna á þessari slóð:  http://www.laeknabladid.is/tolublod/2012/05/nr/4521

Rannsóknir sýna að því fyrr sem hjartahnoð hefst eftir að sjúklingur hnígur niður, og því meiri gæði á hjartahnoði, þeim mun meira aukast lífslíkur sjúklinga sem fara í hjartastopp.1 Nýjar klínískar leiðbeiningar frá árinu 2010 leggja nú áherslu á að hefja hjartahnoð áður en hugað er að öndunarvegi og að trufla hjartahnoð sem minnst. Hnoða skal 30 sinnum og blása tvisvar. Að tveimur mínútum liðnum skal kanna púls en ekki lengur en í 10 sekúndur. Markmiðið er að halda uppi viðunandi blóðþrýstingi til að viðhalda blóðflæði til heila. Ef um stuðvænlegan takt er að ræða, sleglatif eða sleglahraðtakt, skal gefa rafstuð hratt og örugglega.2 Með góðu hjartahnoði má ná upp slagþrýstingi kringum 110 mmHg og meðalþrýstingi í kringum 44 mmHg, mælt í lærisslagæð.3 Ef innankúpuþrýstingur (intracranial pressure – ICP) er eðlilegur ætti gegnumflæðisþrýstingur til heila (cerebral perfusion pressure – CPP) að geta verið 30-37 mmHg. Andköf geta verið merki um gegnumflæði til heilastofns og sýna rannsóknir aukna lifun hjá einstaklingum sem taka andköf. Aldrei skal hætta endurlífgun á meðan andköf eru til staðar.

Tækið er gefið til minningar um þá Pál Steindór Steindórsson og Pétur Róbert Tryggvason en 3.des er afmælisdagur Páls heitins.